Gáski physiotherapy: 568 9009 • Þönglabakka 1, 109 Reykjavík • Bolholti 8, 105 Reykjavík • afgreidsla@gaski.is

Markmiðasetning og meiðsli

Líkt og fjallað var um í síðasta pistli geta meiðsli haft mikil andleg áhrif á íþróttafólk. Þessi andlegu áhrif geta birst í því að íþróttamanninn skortir vilja og áhuga til að stunda þá endurhæfingu sem nauðsynleg er til að hann hljóti bót meina sinna og snúi sem fyrst aftur á íþróttavöllinn. Eitt af þeim verkfærum sem íþróttasálfræðin býr yfir til ýta undir áhuga íþróttafólks í þessari stöðu á að stunda sína endurhæfingu af krafti er markmiðasetning.

verkur í læri 2Þegar gjörðir okkar hafa tilgang, bera árangur, eykst áhugi okkar á að framkvæma þessar gjörðir. Við viljum gera þá hluti sem hafa tilgang og bera árangur. Þegar íþróttamaður lendir í slæmum meiðslum minnkar geta hans til að gera ákveðna hluti og þá jafnvel til mikilla muna. Hreyfing sem íþróttamaðurinn framkvæmdi áður auðveldlega getur orðið honum ómöguleg í kjölfar meiðsla. Þetta getur íþróttamaður átt erfitt með að sætta sig við. Hjá íþróttamanninum kann leiðin að vera löng að fyrri styrk og þó íþróttamaðurinn sé að taka klár framfararskref finnst honum árangur endurhæfingarinnar lítilfjörlegur vegna þess að samanburðurinn er styrkur einstaklingsins fyrir meiðsli. Þetta gerir það að verkum að íþróttamaðurinn skynjar ekki árangurinn af endurhæfingunni nægilega sterkt til að hafa vilja og áhuga á að stunda hana af krafti. Þess vegna er mikilvægt að búnir séu til sigrar á leiðinni til fyrri styrks. Þessir sigrar eru markmiðin.

Íþróttamaðurinn ætti að setja sér markmið í samráði við íþróttasálfræðiráðgjafa, sjúkraþjálfara og lækna um tilteknar framfarir á ákveðnum tímapunktum endurhæfingarinnar. Þessum markmiðum ættu svo að fylgja plön um hvernig markmiðunum verði náð, nokkurs kona æfingaplan. Fókus íþróttamannsins og annarra sem taka þátt í endurhæfingu hans ætti svo að vera á þessu æfingaplani og hverju markmiði sem íþróttamaðurinn nær ætti að vera fagnað sem sigri. Það að setja sér markmið og hafa sigrana í seilingarfjarlægð gerir árangurinn sem íþróttamaðurinn er að ná í endurhæfingarferlinu sýnilegri. Íþróttamaðurinn skynjar frekar framfarirnar og fær betur á tilfinninguna að endurhæfingin sé að skila árangri. Það að íþróttamaðurinn skynji vel árangurinn af endurhæfingunni gerir hann viljugri til að stunda hana af krafti sem hefur svo í för með sér að hann nái fyrri styrk eins fljótt og mögulegt er.

Markmiðasetning er verkfæri sem þarfnast töluverðar lagni við. Til þess að markmið beri þann árangur sem þau eiga að bera þarf að vanda til verks og hafa ýmislegt í huga. Þess vegna er ráðlagt að einstaklingar leiti sér ráðgjafar um markmiðasetningu og helstu lögmál hennar áður en þeir ráðast í að setja sér markmið. Það er hins vegar engum blöðum um það að fletta að vönduð markmiðasetning getur spilað stórt hlutverk í árangursríkri endurhæfingu íþróttafólks eftir meiðsli.

Hreiðar Haraldsson íþróttasálfræðiráðgjafi hjá Gáska

Flokkur :
Deila grein :
en_GB

Skrá á biðlista?

Þarftu afbóka tíma?

Ef þú vilt að bóka nýjan tíma, hringdu í okkur í síma 568 9009

Do you want to book a call?