Brjósklos (diskus prolaps)
Hryggþófar, brjóskþófar eða diskar liggja á milli hryggjaliða og mynda liðamót sem gefa kost á hreyfingu milli þeirra. Hver hryggþófi hefur um leið mikilvægt hlutverk við að binda hryggjarliði saman og á hverjum diski hvílir talsverður þungi í athöfnum okkar daglega lífs.
Það eru 23 hryggþófar í hryggnum: 6 í hálsi, 12 í brjósthrygg og 5 í mjóhrygg, þeir eru disklaga og gerðir úr brjóski. Ytra lag diskana er úr sterku trefjabrjóski en kjarninn er gerður úr “gelkenndu” brjóski. Þessir byggingar eiginleikar hafa það í för með sér að diskarnir virka sem demparar milli einstakra hryggjaliða.
Það er nefnt brjósklos þegar ytra birgði hryggþófa rofnar, kjarni hans leitar út og þrýstir á aðlæga taugarót. Algengast er að brjósklos verði í mjóhrygg en um 95% þeirra verða á því svæði.
Einkenni
Einkenni ráðast af því hvar brjósklosið verður og hversu mikil áhrif það hefur á nærliggjandi vefi. Almennt má segja að einkennin sem fylgja brjósklosi séu aðallega vegna þrýstings á taugarætur og þau geta verið allt frá vægum óþægindum upp í óbærilega verki. Ef brjósklos verður í hálsi þá koma einkennin fram í handlegg eða fingrum og ef það á sér stað í mjóhrygg má reikna með að einkennin séu á lendarsvæði og / eða í fótlegg. Þrýstingur á taugarætur hefur í för með sér að máttur einstakra vöðva minnkar eða þeir jafnvel lamast. Það getur einnig dregið úr skyni s.s. snertiskyni og fólk finnur fyrir dofa á ákveðnu svæði. Alla jafna koma einkennin fram aðein öðru megin í líkamanum en verði þrýstingur á mænu / mænutagl geta einkenni komið fram beggja vegna líkamans, sem geta verið krampar og/eða lömun og skyntruflanir.
Loks má nefna sjaldgæf hættumerki en þau eru truflanir á þvaglátum og/eða skyntruflanir við endaþarm og/eða kynfæri og/eða minnkandi máttur eða lömun í báðum fótum. Verði fólk vart við slík vandamál þarf það að hafa tafarlaust samband við lækni.
Oft eru einkenni staðbundið þar sem brjósklosið er staðsett en það er ekki algilt. Einnig eru dæmi um það að fólk sé einkennalaust.
Orsakir
Meðal þekktra orsaka eru óheppilegt líkamlegt álag hvort sem það tengist vinnu eða því sem fólk fæst við í frítíma sínum. Högg sem berast upp hrygginn og vinna við að lyfta og bera, sér í lagi með snúinn og beygðan hrygg. Langvarandi setur og setur við titring og/eða högg auka á hættuna. Of mikil líkamsþyngd og lélegt líkamlegt ástand geta haft í för með sér aukið álag á hrygginn og hættu á brjósklosi.
Rannsóknir hafa sýnt að ákveðnir erfðaþættir auka líkur á brjósklosi. Einnig eru reykingar sérstakur áhættuþáttur.
Greining
Greining byggir á sögu, einkennum og skoðun. Ýmis próf eru gerð til þess að staðfesta brjósklos eða útiloka aðra þætti. Einnig er myndgreining notuð til staðfestingar og mismunagreiningar og er segulómun (MRI) áreiðanlegast leiðin.
Meðferð
Nýleg íslensk rannsókn leiðir í ljós að batahorfur þeirra sem fá brjósklos í mjóhrygg og fá tilvísum til sjúkraþjálfara eru betri en þeirra sem ekki fá tilvísun. Gjarnan eru verkjalyf og bólgueyðandi lyf notuð til skemmri tíma samhliða meðferð sjúkraþjálfara. Í flestum tilvikum er ekki þörf á aðgerð.
Hlutverk sjúkraþjálfara í meðferð vegna brjóskloss er mikilvægt. Meðal þess er að beita aðferðum til þess að draga úr verkjum og halda þeim í skefjum, leiðbeina með líkamsbeitingu í daglegu lífi og fara yfir hvað er líklegt til að auka verki og hvaða þættir draga úr þeim. Ýmsar leiðir eru til að draga úr þrýstingi á taugarót/-rætur sem draga úr einkennum. Þjálfun s.s. styrktar-, úthalds- og liðleikaþjálfun undir leiðsögn sjúkraþjálfara er sömuleiðis mikilvægur þáttur í endurhæfingarferlinu.
Meðferðin ræðst af því hve alvarleg einkennin eru og á hvaða svæði brjósklosið er. Alla jafn gengur meðferðin vel og mikill meirihluti fólks jafnar sig án aðgerðar. Það getur þó tekið mis langan tíma.
Valgeir Sigurðsson, Sjúkraþjálfari hjá Gáska