Tognun aftan í læri er ekki alltaf tognun aftan í læri.  Alltof algengt er að íþróttamaður sem fær verk aftan í læri sé greindur með tognun í vöðva, svo kölluð tognun í Hamstrings vöðva.  Það er því miður ekki alltaf rétt greining. Ef um endurtekna verki aftan í læri er um að ræða og verkurinn er stundum neðarlega í lærinu og stundum upp við rasskinn, sem sagt ekki alltaf alveg á sama stað þá er ekki um tognun í vöðva að ræða.  Ef að verkurinn í lærinu fer á nokkrum dögum og viðkomandi getur farið að hlaupa eftir viku þá er ekki um tognun að ræða.  Stífleiki í vöðvanum sem ekki fer er ekki vegna tognunar í vöðvanum.  Öll þessi dæmi er ábending að verkurinn komi frá bakinu.  Ég sem sjúkraþjálfari í Gáska hef séð allt of mörg tilfelli um ranglega greindar tognanir aftan í læri. Við einfalda skoðun kemur í ljós að verkurinn í lærinu er frá taugaertingu í baki.

verkur í læri fótbolti

Dæmigert tilfelli er fótboltamaður sem er að taka sprett og fær sting aftan í læri.  Vöðvinn stífnar upp og viðkomandi fær verk og þarf að hætta.  Hann segist hafa tognað í læri.  Hann er svo skoðaður og vissulega er margt sem bendir til tognunar, vöðvinn er stífur og aumur og í vörn.  En vörn fyrir hverju?  Ef taugar sem liggja frá baki eru „viðkvæmar“  og það er strekkt á þeim, t.d. við sprett, þá er kemur fram varnarspenna í vöðvann til að togið hætti.  Afleiðingin er stingur í lærið, og vöðvinn stífnar upp.    Vöðvinn sjálfur er heill, engin rifa í honum og engin tognun á vöðvaþráðum og engin merki um blæðingu.    Ef meðferðin er hvíld, og einungis unnið með vöðvann þá kemur þetta upp aftur og aftur, því upptökin eru frá bakinu.

verkur í læri 2

Annað dæmigert tilfelli er hlaupari sem fær sting við hlaup aftan í læri og er bara alltaf að „togna aftan í læri“,stundum hægra megin og stundum vinstra megin.  Ástæðan liggur ekki í vöðvunum, upptökin eru frá bakinu.

Verkur í læri er oftar en ekki frá bakinu. T.d. vegna skekkju í mjaðmagrind sem við hlaup hindrar hreyfingu í mjaðmalið sem eykur álag á neðstu mjóbaksliði.  Stífleika eða ofhreyfanleika í mjóhrygg sem setur álag á taugavef.  Bólgu í taugavef eða  samgróninga í kringum taugavef sem hindrar eðlilega hreyfingu taugavefs. Útbungunar hryggþófa eða þrenginga að taugarótum í mjóhrygg.  Styttingar í vöðvum framanvert í mjaðmagrind sem eykur fettu í mjóbaki sem eykur álag á taugavef niður í læri.

Láttu sjúkraþjálfarann skoða þig vel þegar þú færð verk aftan í læri, ekki bara lærið…

 

Sveinn Sveinsson

Sjúkraþjálfari, MTc

Gáski  Bolholti og Mjódd

Tagged on: