Meðhöndlum meinið. Sveinn Sveinsson sjúkraþjálfari varar við ofnotkun verkjalyfja. Samkvæmt rannsóknum geta sum þeirra aukið líkur á hjartaáfalli  en öll hafa þau misalvarlegar aukaverkanir sem valda fólki ama.

Þó svo að ólyfseðilskyld verkjalyf geti slegið tímabundið á verki eru þau ekki ætluð sem langtímalausn við verkjum. Í leiðbeiningum sem fylgja þeim má lesa að aukaverkanir geta verið misalvarlegar. Samkvæmt rannsókn um notkun díklófenak-lyfja, sem birtist nýverið í fræðiritinu PLOS Medicine, kemur fram að þau auka líkur á hjartaáfalli. Þar á meðal er lyfið Voltaren Dolo, sem er mikið notað hérlendis en Voltaren Dolo er talið bera með sér svipaða áhættu og lyfið Vioxx sem tekið var af markaði árið 2004.

LyfSveinn bendir á að aðgengið að þessum verkjalyfjum sé óheft og þau mikið auglýst, einnig að verkjalyf í sjálfu sér séu ekki slæm ef þau eru notuð skynsamlega. Hans tilfinning er hins vega sú að verkjalyf séu notuð í mun meiri mæli en áður. Langvarandi notkun slíkra lyfja getur haft margvíslegar aukaverkanir í för með sér eins og hækkun á blóðþrýstingi, magabólgur, eyrnasuð, magablæðingar, ógleði, höfuðverk og fleira.

Þegar það heyrast einhver óhljóð í bílnum okkar þá hækkum við ekki bara í græjunum til að yfirgnæfa hljóðið. Við förum með bílinn í viðgerð, finnum út hvað er að og látum lagfæra það. Við vitum nefnilega að það að keyra bilaðan bíl er mjög slæmt fyrir bílinn og getur aukið kostnaðinn við viðgerðina þegar bílinn loksins gefst upp.  Langtímanotkun verkjalyfja er svolítið eins og að hækka í græjunum.

Markaðssetning þessara lyfja er öflug og villandi.  Í sjúkraþjálfun innbyrðir fólk upplýsingar en ekki lyf. Það er því mikilvægt að einstaklingar gleypi ekki við þessum auglýsingaáróðri og auki þar með líkur á að fá hjartaáfall, magaverki, niðurgang, höfuðverk, bjúg og fleira.

Sveinn telur því brýnt að endurtaka að sjúkraþjálfun getur verið lausnin fyrir einstaklinga til að komast að rót vandans, vinna  gegn honum, tengdum verkjum og draga þannig úr óþarfa inntöku þessara lyfja.

 Sveinn Sveinsson ; Sjúkraþjálfari MTc : Gáski sjúkraþjálfun

Tagged on: